Beint í efni

Sigur í Landsrétti

Félagsmanni í Stéttarfélagi lögfræðinga dæmdar skaða- og miskabætur eftir að starf hans var lagt niður

Þann 27. október sl. féll dómur í Landsrétti sem Stéttarfélag lögfræðinga rak fyrir félagsmann sinn. Í stuttu máli vannst sigur í málinu en félagsmanninum voru dæmdar skaða- og miskabætur eftir að starf hans var lagt niður með ólögmætum hætti.

Í dómi Landsréttar, þar sem niðurstaða Héraðsdóms Reykjaness er staðfest, segir að Kópavogur hefði brotið gegn rétti félagsmannsins með því að tengja uppsögn hans ætluðum skipulagsbreytingum án þess að bjóða honum tilfærslu í starfi þegar þeim var hrundið í framkvæmd.

Í niðurstöðu dómsins segir sýnt að ákvörðun bæjarins um skipulagsbreytingar hafi byggst á mati bæjarins á því hvaða breytinga væri þörf í því skyni að hagræða í rekstri hans. Hins vegar hafi bærinn ekki þótt hafa fært fram viðhlítandi rök eða gögn til stuðnings því að ekki hafi verið unnt að færa félagsmanninn til í aðra af sambærilegum stöðum sem urðu til í kjölfar skipulagsbreytinganna og að óhjákvæmilegt hafi verið að segja honum upp störfum. Væri uppsögnin því ólögmæt.