Afnemum ofbeldi og áreitni á vinnustöðum
Ályktun Jafnréttisnefndar BHM 8. desember 2022
Jafnréttisnefnd BHM hvetur stjórnvöld til að fullgilda samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um afnám ofbeldis og áreitni á vinnustöðum.
Alþjóðavinnumálastofnun (ILO) sendi árið 2019 frá sér samþykkt nr. 190 um aðgerðir til afnáms ofbeldis og áreitni á vinnustöðum. Samþykktin er yfirlýsing aðila vinnumarkaða að ofbeldi og áreitni á vinnustöðum sé ógn við jafnrétti, óviðunandi og ósamrýmanleg mannsæmandi vinnu. Samþykktinni er ætlað að vernda launafólk og skuldbindur aðildarríki til að grípa til forvarna og aðgerða gegn áreitni og ofbeldi.
Íslensk stjórnvöld hafa enn ekki fullgilt þessa samþykkt.
Jafnréttisnefnd BHM telur því fagnaðarefni að félags- og vinnumarkaðsráðherra hafi nú skipað vinnuhóp um innleiðingu samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunar nr. 190. Nefndin hvetur íslensk stjórnvöld til að sýna forystu á alþjóðavettvangi, fullgilda samþykktina sem fyrst og grípa til forvarna og aðgerða gegn áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.