Beint í efni

Vinnuréttur

Helstu atriði er varða réttindi og skyldur á vinnumarkaði

Hér er að finna ýmsar almennar upplýsingar um réttindi og skyldur á vinnumarkaði, svo sem um rétt til launa í veikindum, orlofsrétt, uppsagnir o.fl.

Ef félagar þurfa á aðstoð að halda geta þeir haft beint samband við skrifstofu félagsins, til dæmis með því að senda okkur fyrirspurn.

Ráðning til starfa

Félagsfólk vinnur fjölbreytt störf á öllum sviðum samfélagsins, hjá hinu opinbera og í fyrirtækjum á almennum markaði. Í krafti fjöldans og fjölbreytninnar stendur félagið þitt vörð um mikilvægi hugvits, sérfræðikunnáttu og menntunar.

Sjá nánar á vinnuréttarvef BHM

Laun

Kynntu þér allt um kaup, kjör og þína stöðu. Aðildarfélög BHM gera þá kröfu að kaup og kjör félagsmanna sinna endurspegli menntun þeirra, símenntun, fagþekkingu og hagrænt virði fyrir samfélagið. Launasetning sé ávallt byggð á málefnalegum grunni og jafnrétti. Þá þurfa starfsaðstæður og starfsumhverfi háskólamenntaðra að vera með þeim hætti að nauðsynleg nýliðun starfsstétta sé tryggð og unnt sé að laða menntað fólk til starfa á öllum sviðum atvinnulífsins.

Sjá nánar á vinnuréttarvef BHM

Veikindaréttur

Allt launafólk á rétt á launum frá vinnuveitanda vegna veikinda og slysa í tiltekinn tíma. Fjöldi veikindadaga er þó mismunandi eftir kjarasamningum og því hvort félagsmaður er opinber starfsmaður eða vinnur á almennum vinnumarkaði.

Sjá nánar á vinnuréttarvef BHM

Heilsan í vinnunni

Starfsfólk á rétt á heilbrigðum og öruggum vinnuaðstæðum. Öflugt vinnuverndarstarf sem skilar árangri krefst þekkingar og ábyrgðar af hálfu vinnuveitanda, samvinnu við starfsfólk, áhættumats og forvarna. Heilbrigt vinnuumhverfi, gott skipulag vinnutíma og mönnun starfa í samræmi við álag, skilar sér í meiri starfsánægju og betra vinnuframlagi. Öflugt vinnuverndarstarf kemur bæði starfsfólki og vinnuveitendum til góða.

Sjá nánar á vinnuréttarvef BHM

Jafnrétti á vinnumarkaði

Óheimilt er mismuna starfsfólki á grundvelli kynferðis, þjóðernis, fötlunar, kynhneigðar og annarra þátta. Stjórnarskrá Íslands kveður á um þá grundvallarreglu að allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Sjá nánar á vinnuréttarvef BHM

Skyldur starfsfólks

Vinnuveitandi hefur það sem kallað er stjórnunarrétt sem veitir honum heimild til að skipuleggja og stýra vinnu starfsfólks. Mikilvægt er að kunna skil á þeim takmörkunum sem sá réttur er bundinn. Stjórnunarréttur vinnuveitanda er rétturinn til að skipuleggja og stýra vinnu starfsfólks og hafa eftirlit með frammistöðu þess, sem og að taka ákvörðun um ráðningu starfsfólks og uppsagnir. Stjórnunarrétturinn er ekki lögfestur heldur er hann grundvöllur allra vinnusambanda og viðurkenndur sem ein af meginreglum vinnuréttarins.

Sjá nánar á vinnuréttarvef BHM

Jafnvægi einkalífs og vinnu

Mikilvæg skref hafa verið tekin til að stuðla að betra jafnvægi vinnu- og fjölskylduábyrgðar launafólks. Í jafnréttislögum er samræming fjölskyldu- og atvinnulífs skilgreind meðal þeirra leiða til að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.

Sjá nánar á vinnuréttarvef BHM

Yfir landamærin

Frjálst flæði fólks er ein af grunnstoðum EES-samningsins sem tengir saman vinnumarkaði aðildarríkja ESB ríkja og EFTA-ríkjanna Íslands, Liechtenstein og Noregs. EES-ríkisborgarar hafa rétt til að búa og starfa og stunda nám í hvaða EES-ríki sem er. Frjáls för fólks innan EES felur í sér afnám allrar mismununar milli launafólks í aðildarríkjum sem byggð er á ríkisfangi og lýtur að atvinnu, launum og öðrum starfsskilyrðum. Einnig er kveðið á um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi og samhæfingu almannatrygginga. Hvort tveggja er nauðsynlegt til að gera fólki kleift að nýta á skilvirkan hátt grundvallarrétt sinn til frjálsrar farar. Þessar reglur ná einnig til Sviss.

Sjá nánar á vinnuréttarvef BHM

Persónuvernd

Vinnuveitanda er heimilt að vinna með persónuupplýsingar sem eru nauðsynlegar til að halda utan um réttindi og skyldur aðila samkvæmt lögum og kjarsamningum. Skýrasta dæmið um það eru tímaskráningar, launavinnsla og skráning fjarvista, orlofs o.s.frv. Í þeim tilvikum og öðrum verður að gæta að því að fyrir liggi í hvaða tilgangi slíkt er gert og að ekki séu skráðar víðtækari upplýsingar en þörf er á miðað við þann tilgang. Þá verður að veita starfsmönnum fræðslu um vinnsluna.

Sjá nánar á vinnuréttarvef BHM

Orlofsréttur

Orlofslög kveða á um rétt og skyldu starfsfólks til að taka sér árlegt frí frá störfum sem það nýtir í hvíld og endurnæringu. Í því felst bæði réttur til að taka leyfi frá störfum og réttur til launagreiðslna á meðan orlofinu stendur.

Sjá nánar á vinnuréttarvef BHM

Skipulagsbreytingar

Starfsfólk á rétt á upplýsingum og samráði í aðdraganda skipulagsbreytinga. Mikilvægt er að skipulagsbreytingar séu ekki einungis byggðar á markmiðum um betri nýtingu fjármuna heldur sé einnig horft til hagsmuna og réttinda launafólks. Samkvæmt reglum um upplýsingar og samráð skal yfirstjórn fyrirtækis eða stofnunar eiga frumkvæði að samtali við fulltrúa starfsfólks þar sem fyrirhugaðar breytingar eru kynntar og leitað álits á þeim áður en þær koma til framkvæmda.

Sjá nánar á vinnuréttarvef BHM

Uppsagnir og starfslok

Mikilvægt er að hafa í huga að mismunandi ákvæði um uppsögn og málsmeðferð geta verið í gildi milli ólíkra vinnumarkaða samkvæmt lögum og kjarasamningum. Félagar sinna fjölbreyttum störfum hjá ríki og sveitarfélögum og á hinum almenna vinnumarkaði. Félagsmenn eru hvattir til að hafa samband við sitt stéttarfélag til að kanna rétt sinn, hvort sem þeir segja sjálfir upp starfi sínu eða er sagt upp af vinnuveitanda.

Sjá nánar á vinnuréttarvef BHM

Vinnutími og hvíldartímareglur

Í kjarasamningum sem voru undirritaðir veturinn 2019-2020 var kveðið á um heimild til að gera breytingar á skipulagi vinnutíma dagvinnufólks og stytta vinnuvikuna í allt að 36 virkar vinnustundir á viku. Samið var um að styttingin skyldi taka gildi í síðasta lagi 1. janúar 2021. 

Sjá nánar á vinnuréttarvef BHM

Aðstoð Stéttarfélags lögfræðinga

Ef þú ert enn með spurningar sem ekki er svarað hér fyrir ofan hvetjum við þig til að hafa samband við skrifstofu félagsins

Þú getur sent inn fyrirspurn, til dæmis varðandi almennar spurningar um vinnurétt og kjaramál.

Þú getur líka stofnað formlega þjónustubeiðni sem fer sjálfkrafa inn í málaskrár kerfi okkar, til dæmis vegna umfangsmikilla eða viðkvæmra erinda

Loks má bóka símtal við sérfræðing, ef þú heldur að það eigi betur við.

Þjónustuskrifstofa félagsins er til húsa í Borgartúni 6 (sama húsi og BHM). Hún er opin alla virka daga frá kl. 9-12 og 13-16. Síminn er 595 5165.