Stofnanasamningar
Yfirlit yfir gildandi stofnanasamninga sem Stéttarfélag lögfræðinga hefur gert. Kjarasamningar við ríkið eru tvískiptir. Annars vegar eru gerðir miðlægir kjarasamningar sem kveða almennt á um réttindi og skyldur, miðlægar hækkanir o.s.frv. og hins vegar stofnanasamningar.
Kjarasamningar við ríkið eru tvískiptir. Annars vegar eru gerðir miðlægir kjarasamningar sem kveða almennt á um réttindi og skyldur, miðlægar hækkanir o.s.frv. og hins vegar stofnanasamningar.
Stofnanasamningur er hluti af kjarasamningi ríkis og aðildarfélags BHM og ekki er hægt að segja honum upp sérstaklega. Honum er meðal annars ætlað að tryggja þróun og stuðla að skilvirkara launakerfi sem tekur mið af þörfum og verkefnum stofnunar og starfsmanna hennar. Stofnanasamningur er sérstakur samningur milli stofnunar og viðkomandi stéttarfélags um aðlögun tiltekinna þátta kjarasamningsins að þörfum stofnunar og starfsmanna með hliðsjón af eðli starfsemi, skipulagi og/eða öðru því sem gefur stofnun sérstöðu. Viðræður um hann fara fram undir friðarskyldu, þ.e. ekki er hægt að beita verkfalli til að þvinga fram breytingar á honum sem slíkum.
Í stofnanasamningi skal semja um grunnröðun starfa og hvaða þættir og/eða forsendur skuli ráða röðun þeirra. Starfslýsing er ein af forsendum röðunar starfa í launaflokka og skal hún endurskoðuð í takt við þróun viðkomandi starfs.
Í stofnanasamningi er einnig samið um persónu- og tímabundna þætti svo sem viðbótarmenntun sem nýtist í starfi, starfsreynslu, hæfni, frammistöðu, o.fl.
Stéttarfélög eða stofnun geta gert sameiginlegan stofnanasamning, ýmist sameiginlegan fyrir félög innan stofnunar eða fyrir hóp stofnana.
Að styrkja starfsemi viðkomandi stofnunar þegar til lengri tíma er litið með því að færa í hendur stofnunar og stéttarfélags f.h. starfsmanna hennar útfærslu tiltekinna þátta kjarasamningsins og skapa þannig forsendur fyrir betri starfsskilyrðum starfsmanna.
Að færa ákvörðun um launasetningu starfa nær starfsvettvangi þar sem hægt er að bregðast hraðar við breytingum sem eiga sér stað á störfum og skipulagi stofnana.
Að auka gæði þjónustunnar með því að efla samstarf starfsmanna og stjórnenda á vinnustað. Samstarfinu er ætlað að bæta rekstrarskipulag stofnunar, bæta nýtingu rekstrarfjármagns og skapa grundvöll fyrir aukinni hagræðingu og skilvirkara launakerfi og þannig gefa starfsmönnum tækifæri til að þróast og bæta sig í starfi og þar með auka möguleika þeirra á bættum kjörum.
BHM og ríkið hafa sameiginlega gefið út handbók um gerð og inntak stofnanasamninga þar sem finna má ýmsar leiðbeiningar er varða gerð stofnanasamninga.
Á heimasíðunni Stofnanasamningar.is, sem er samstarfsverkefni kjara- og mannauðssýslu ríkisins og stéttarfélaga, má finna efni sem nýtist við gerð og framkvæmd stofnanasamninga.
Yfirlit yfir stofnanasamninga
Stefnt er að því að taka hér saman á einum stað alla stofnanasamninga sem félagið hefur gert.
Þar til það yfirlit er tilbúið er vísað á heildarlista stofnanasamninga á vefnum stétt.is, með samningum allra þeirra félaga sem eru í umsjón þjónustuskrifstofu félagsins.