Aukin réttindi úr styrktarsjóði
Sigur Stéttarfélags Lögfræðinga í réttindabaráttu fyrir félagsfólk
Í dag þann 1. september taka gildi nýjar úthlutunarreglur og endurbættar úthlutunarreglur Styrktarsjóðs BHM. Breytingarnar fela í sér verulegar réttarbætur fyrir félagsfólk SL og er liður í þeirri hagsmunabaráttu sem félagið hefur háð undanfarin misseri. Úr þeim sjóði eru veittir styrkir til félagsfólks aðildarfélaga BHM á opinberum markaði, hjá ríki eða sveitarfélögum.
Stjórn Styrktarsjóðs hefur unnið að gagngerri endurskoðun reglnanna með það að leiðarljósi að einfalda kerfið, útvíkka styrkflokka og mæta betur þörfum sjóðfélaga. SL hefur barist hart fyrir þessum breytingum í þágu félagsfólks, meðal annars með því að leggja áherslu á að styrkir nýtist breiðari hópi og að þeir endurspegli raunverulegan kostnað sem lögfræðingar og aðrir sjóðfélagar standa frammi fyrir.
Útfærsla reglnanna er með breyttu sniði, sem í megindráttum byggir þrískiptingu þeirra í Sjúkradagpeninga, Grunnstyrki og Forvarnir og meðferðir.
Helstu breytingar sem taka gildi:
- Hækkun sjúkradagpeninga: Hámarksupphæð á mánuði hækkar úr 713.000 kr. í 950.000 kr.
- Dánarbætur: Greiddar verða í allt að 5 ár frá starfslokum sjóðfélaga (175.000 kr.), en haldast óbreyttar 350.000 kr. ef andlát verður innan tveggja ára.
- Fæðingarstyrkur: Hækkar úr 175.000 kr. í 200.000 kr.
- Nýr styrkflokkur – Forvarnir og meðferðir: Hámarksstyrkur 60.000 kr. á 12 mánaða tímabili, m.a. fyrir
meðferðir hjá löggiltu heilbrigðisstarfsfólki
fjölskyldu- og listmeðferð
gleraugnakaup
tannviðgerðir
fjölbreyttar krabbameinsleitir
SL fagnar þessum breytingum sem eru til marks um að samstaða og markviss hagsmunagæsla skilar árangri. Félagið mun áfram fylgja eftir því að úthlutunarreglur sjóðsins þróist í takt við þarfir félagsfólks.