Beint í efni

Heimild til frestunar á niðurfellingu orlofs framlengd

Náðst hefur samkomulag milli opinberra launagreiðenda og heildarsamtaka opinberra starfsmanna um að framlengja heimild til frestunar á niðurfellingu orlofs.

Ríkið og Reykjavíkurborg

Í tilfelli starfsfólks ríkis og Reykjavíkurborgar hefur heimild til frestunar á niðurfellingu orlofs, sem að hámarki getur orðið 60 dagar, verið framlengd um eitt ár eða til 30. apríl 2024. Eftir þann dag þá fellur eldra orlof niður. Launagreiðendur bera ábyrgð á að skipuleggja orlofstöku starfsfólks síns að teknu tilliti til óska þess eins og unnt er vegna starfseminnar.

Launagreiðendur þurfa því að:

  • Upplýsa starfsfólk um stöðu orlofs.
  • Hvetja starfsfólk til að senda inn orlofsóskir hafi það nú þegar ekki verið gert.
  • Ákveða sumarorlof starfsfólks fyrir 31. mars nema sérstakar aðstæður hamli.
  • Gera tímasettar áætlanir um úttekt uppsafnaðs orlofs hjá þeim sem það á við.

Samband íslenskra sveitarfélaga

Í tilfelli Samband íslenskra sveitarfélaga hefur niðurfellingu einnig verið frestað en um ótilgreindan tíma. Í þeim tilfellum sem starfsfólki hefur ekki verið gert kleift að taka uppsafnað orlof verði þeim aðstæðum mætt af hálfu launagreiðenda með gerð skriflegs samkomulags við starfsfólk um hvernig töku uppsafnaðs orlofs verði lokið. Gerð þess samkomulags skal lokið eigi síður en 15. apríl 2023 en náist slíkt samkomulag ekki þá skal launagreiðandi tilkynna starfsmanni eigi síðar en 1. maí 2023 hvernig orlofstöku skuli háttað þannig að tryggt verði að starfsmaður nái að ljúka töku uppsafnaðs orlofs.

Mikilvægi hvíldar

Eftir sem áður er lögð áhersla á mikilvægi þess að starfsfólk taki orlof sér til hvíldar og endurnæringar en safni því ekki upp.