Ríkið heldur ekki í við almenna markaðinn og greiðir 1,24% uppbótalaun - Sveitarfélögin standa sig betur
Kæri félagi
Í undangengnum kjarasamningsviðræðum á opinberum markaði lagði Stéttarfélag lögfræðinga á það þunga áherslu að kaupmáttur háskólamenntaðra yrði tryggður og mikilvægt væri að auka virði háskólamenntunar ef ekki ætti illa að fara.
Aðhald í rekstri, ríkistyrktir kjarasamningar á almennum markaði og áhersla á hækkun lægstu launa undanfarinn áratug eða svo eru á meðal þeirra þátta sem haft hafa hvað mest áhrif á neikvæða þróun kjara- og kaupmáttar háskólafólks hjá hinu opinbera.
Stéttarfélag lögfræðinga telur mikilvægt að opinberir launagreiðendur fylgi þróun launa á markaði og séu ávallt samkeppnishæfir um þjónustu hæfra sérfræðinga. Sé því ekki sinnt með fullnægjandi hætti leiðir það til hnignunar á virði háskólamenntunar og hæfi vinnuafls með alvarlegum neikvæðum áhrifum á samkeppnisstöðu Íslands samanborið við aðrar þjóðir.
Til að mæta ófullnægjandi launatilboði hins opinbera og þannig leiða erfiðar kjarasamningsviðræður til lykta var gengið frá skuldbindandi ábyrgðartryggingu á milli aðila þar sem hið opinbera skuldbatt sig til að bæta háskólafólki upp misræmi í hækkun launa á almennum og opinberum vinnumarkaði. Um svokallaða launaþróunartryggingu er að ræða.
Vonir félaga stóðu til þess að ekki myndi reyna á þessa tryggingu þar sem hún þýðir í eðli sýnu að hið opinbera sé ekki sjálfbært um hækkun launa og þurfa þess í stað að reiða sig á uppbótakerfi launa og leiðréttingar. Verði treyst á slíkt kerfi gæti það til lengri tíma litið reynst vera kostnaðarsamt fyrir háskólamenntaða hjá ríkinu.
Laun lögfræðinga hjá ríkinu hækka um 1,24% - Ríkið heldur ekki í við almenna markaðinn
Niðurstaða liggur nú fyrir og því miður er misræmi í þróun meðallauna hjá ríkinu samanborið við sérfræðinga á almennum markaði. Háskólamenntaðir sérfræðingar hjá ríkinu fá því launauppbætur á launatöflu sem nema 1,24% frá og með 1. september næstkomandi. Þróun launa hjá sveitarfélögum er í betra samræmi við þróun launa á almennum markaði og því kemur ekki til launauppbóta þar.
Virðingarfyllst
Stéttarfélag lögfræðinga