Staða kjaraviðræðna 4. september
Ágæti félagi
Undanfarið hafa átt sér stað reglulegir fundir á milli opinberra laungreiðenda og stéttarfélaga háskólamenntaðra og eru frekari fundir skipulagðir. Stjórn Stéttarfélags lögfræðinga, SL, vonar að með þessu megi því líta svo á að skriður sé kominn á eiginlegar viðræður um framlengingu og endurskoðun kjarasamninga á milli stéttarfélaga háskólamenntaðra og hins opinbera. Önnur háskólafélög hafa einnig verið í viðræðum að undaförnu og þá virðist aukin kraftur vera að færast í þær svo sem hjá félagi náttúrufræðinga og öðrum BHM félögum, félögum lækna, verk- og tæknifræðingum og aðildarfélög Kennarasambands Íslands.
Megináherslur þessara félaga eru allar á sömu lund. Þau eru viljug til að leggja sitt af mörkum til að vinna gegn verðbólgu hér á landi en setja þó mörkin við rýrnun kaupmáttar og frekari gengisfellingu á virði háskólamenntunar. Kjör háskólamenntaðra, samanborið við aðra hópa, hafa versnað mikið á undaförnum árum og gert það að verkum að háskólamenntun borgar sig ekki lengur. Ungt fólk á Íslandi menntar sig ekki lengur til jafns við aðrar þjóðir.
Það er ekki þess virði lengur að sækja sér háskólamenntun. Kostnaðurinn er einfaldlega of hár sé horft til þátta eins væntra ævitekna, rýrnun lífeyrisréttinda og seinkaða eignamyndun að loknu fimm ára háskólanámi. Hvergi innan OECD finnst minni munur á launum grunnmenntaðra og háskólamenntaðra. Áherslur á launhækkanir, skattkerfisbreytingar og millifærslur og bætur til lægra launaðra hópa ásamt auknum álögum og hófstilltum launahækkunum til handa háskólamenntuðum hafa gert það að verkum að ráðstöfunartekjur þeirra eru í dag að meðaltali svo lágar að menntun er hætt að borga sig. Þessi stefna er ósjálfbær og óábyrg og til framtíðar mun það bitna verulega á hag þjóðarinnar og samkeppnishæfi Íslands hvort sem horft er til skamms og langs tíma litið.
Ljóst er að 3,25%-3,5% hækkun launa á ári færir okkar hópum ófullnægjandi launauppbætur í ljósi kaupmáttarrýrnunar undanfarinna ára, verðbólguhorfa til næstu ára og sívaxandi skattbyrði og kostnaðar sem okkar félagar þurfa að bera. Endurhugsa þarf samfélagslegt virði menntunnar og hvatann til náms. Kostnaður við menntun samanborið við kjör eftir að á vinnumarkaðinn er komið má ekki leiða til þess að fólk gjaldi fyrir það. Á sama tíma og kaupmáttarþróun háskólamenntaðra hefur staðið í stað frá aldamótum hleypur þróun kaupmáttar annarra hópa á tugum prósenta.
Nú þegar efnahagur annarra landa er tekin að vænkast og kjör og lífsgæði launtaka erlendis batna er enn fremur hætt við því að atgervisflótti hefjist með neikvæðum afleiðingum fyrir þróun íslensks efnahagslífs. Aðför Samtaka atvinnulífisins gegn launafólki og þá einkum starfsfólki hins opinbera er ákaflega varhugaverð að mati stjórnar SL.
Síversnandi kjör háskólamenntaðra eru þegar farinn að taka sinn toll og brýnt að bregðast við stöðunni. Rýr samningur til fjögurra ára þar sem samtali um vandann, stöðu og kjör háskólafólks er frestað enn á ný er nær óhugsandi eins og sakir standa. Mikilvægt er að hefja strax samtal um raunverulegar úrbætur og eða aðgerðir til að bregðast við stöðunni. Tónninn er því skiljanlega þungur og mörg félög háskólamenntaðra þegar farin að herða róðurinn. Ábyrgð stéttarfélaga háskólamenntaðra í yfirstandandi kjaralotu er mikil og vanda þarf til verka ef ekki á illa að fara.
Vonir stjórnar SL standa til þess að samningar náist á næstunni og munum við leggja kapp á að ná góðum samningum eins fljótt og því verður viðkomið. Samningavinna tekur þó tíma og sýna þarf þolinmæði ef hún á að vera árangursrík. Stéttarfélög háskólamenntaðra munu áfram standa þétt saman þátt fyrir mótlætið í erfiðri hagsmunabaráttu.
Ekki hika við að við að hafa samband við okkur með spurningar í síma 595-5143 eða með tölvupósti í sl@stettarfelaglofraedinga.is hvort sem þær tengjast kjarasamningsviðræðum, einstaklingsmálum, ráðgjöf eða hvaðeina sem snýr að málefnum félagsins. Öll tækifæri til að heyra raddir félagsfólks skipta félagið sköpum í kjarabaráttunni.
Virðingarfyllst,
stjórn SL.