Kjaraviðræður við sveitarfélögin
Viðræður við sveitarfélögin hafa ekki skilað tilætluðum árangi
Kjaraviðræður Stéttarfélags lögfræðinga við Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg hafa ekki skilað tilætluðum árangri og því halda samningaviðræður áfram inn í maímánuð.
Því miður hefur ekki náðst sátt um úrlausn mála sem talin eru veigamikil kjara- og réttindamál og snúa jöfnun kjara þeirra sem starfa innan BHM við kjör annarra heildarsamtaka. Áfram verður fundað með Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg með það að markmiði að ná samningum sem fyrst. Litið er svo á að mikilvægt sé að leiða málið til lykta þar sem óhagstæð niðurstaða nú geti haft veruleg neikvæð áhrif á hagsmuni félagsfólks til framtíðar litið.
Markmið félagsins var að nýr samningur lægi fyrir áður en fyrri samningur rynni út. Stéttarfélög BHM komu hins vegar seint að borðinu og strax varð ljóst að nokkuð langt var í land og að ekki tækist að ljúka samningi í tæka tíð. Vonir félagsins standa þó til þess að samningar náist sem fyrst og þannig verði félagsfólk ekki fyrir langvarandi óþægindum vegna framhalds viðræðna.