Beint í efni

Lítil arðsemi og lágt menntunarstig í auðugu landi

Skýrlsa um virði menntunar í íslenskum og alþjóðlegum samanburði sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir BHM hefur litið dagsins ljós.

Það sem meðal annars kom fram í skýrslunni eru eftirfarandi punktar:

Hærra hlutfall kvenna þýðir lægra tímakaup

  • Meðaltímakaup fullvinnandi sérfræðinga var á bilinu 3.900–6.000 krónur á árinu 2021, en mismunandi eftir mörkuðum. Þeim mun hærra sem hlutfall kvenna er í sérfræðistörfum því lægra er tímakaupið.

Tekjur mjög mismunandi eftir æviskeiði og þúsaldarkynslóð í kreppu

  • Háskólamenntaðir karlar á aldrinum 45–64 ára eru með um 40% hærri meðalatvinnutekjur en kvenkyns sérfræðingar á sama aldri. Það gæti meðal annars skýrst af greiðara aðgengi karla en kvenna að stjórnunarstöðum og örari framgangi þeirra innan fyrirtækja á því aldursskeiði

Ávinningur kvenna af háskólanámi neikvæður til aldamóta

  • Ávinningur fólks af háskólanámi, mældur í mun á atvinnutekjum háskólamenntaðra og framhaldsskólamenntaðra eftir skatt, hefur sveiflast mikið á síðustu áratugum

Arðsemi mun minni að meðaltali og mismunandi eftir atvinnugreinum

  • Ef kostnaður (fórn í tekjum og bein útgjöld) er veginn upp á móti ávinningi af háskólanámi kemur í ljós að arðsemi háskólamenntunar er mun minni á Íslandi en í öðrum löndum og að meðaltali innan OECD, eða sem nemur 11% raunvöxtum árlega, samanborið við 17% að meðaltali innan OECD

Lítil arðsemi gæti orðið samfélaginu dýrkeypt

  • Aðsókn ungs fólks í háskólanám er mun minni hér en í öðrum löndum. Aðeins 38% fólks á aldrinum 25–34 ára hefur aflað sér háskólamenntunar á Íslandi, samanborið við 51% í Noregi og 49% í Svíþjóð, svo dæmi séu tekin

Fréttin birtist fyrst á vef BHM og er rituð af Þórhildi Þorkelsdóttur kynningarfulltrúa BHM og Vilhjálmi Hilmarssyni hagfræðingi BHM.