Áminningarskylda stjórnenda
Umsögn SL
Stéttarfélag lögfræðinga hefur skilað inn umsögn um áform um breytingar á lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem birtust í Samráðsgátt 12. september 2025. Breytingarnar fela í sér að fella niður áminningarskyldu stjórnenda sem undanfara uppsagnar.
Helstu atriði í umsögn SL:
- Skortur á rökstuðningi: Ekki liggur fyrir hvernig afnám áminningarskyldu bæti ríkisrekstur eða þjónustu við samfélagið. Þvert á móti myndi það veikja starfsöryggi, draga úr starfsánægju og gera opinber störf síður aðlaðandi fyrir hæfa umsækjendur.
- Starfsumhverfi: Hægt væri að styrkja stöðu stjórnenda í málum sem varða einelti, áreitni og ofbeldi án þess að fella niður áminningarskyldu almennt.
- Áminning og réttarríkið: Áminning er mikilvægt tæki til að tryggja réttaröryggi starfsmanna og málefnalega stjórnsýslu. Sérstaklega á þetta við um lögfræðinga sem taka daglega íþyngjandi ákvarðanir gagnvart borgurum.
- Rangt að áminning hindri uppsagnir: Reynslan sýnir að unnt er að segja upp starfsmönnum sem ekki standa sig, en áminning tryggir faglega málsmeðferð.
- Skortur á samráði: SL gerir alvarlegar athugasemdir við að áformin hafi ekki verið unnin í samstarfi við stéttarfélög opinberra starfsmanna.
SL leggur til að áformin um afnám áminningarskyldu verði dregin til baka og lýsir sig reiðubúið til frekara samráðs við ráðuneytið.