Stéttarfélag lögfræðinga eflist með samstarfi þriggja stéttarfélaga!
Ný þjónustuskrifstofa lítur dagsins ljós
Stéttarfélag lögfræðinga (SL) hefur til fjölda ára rekið þjónustuskrifstofu með fjórum öðrum stéttarfélögum. Þjónustuskrifstofan sér um daglegan rekstur og þjónustu við félagsfólk. Undir lok októbermánaðar fóru þrjú af þeim fimm félögum sem rekið hafa skrifstofuna sameiginlega fram á slit hennar. Þessi félög hafa nú kosið að sameinast undir merkjum nýs félags - Visku. SL virðir ákvörðun þessara stéttarfélaga og óskar nýja félaginu velfarnaðar.
Við þessar aðstæður þurfti SL að tryggja áframhaldandi rekstur félagsins og þjónustu gagnvart félagsfólki. SL og Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins (FHSS) ásamt Kjarafélagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga (KVH) hafa nú sameinast um sameiginlegan rekstur nýrrar þjónustuskrifstofu fyrir félagsfólk frá og með næstu áramótum. Löng hefð og reynsla er kominn á rekstur sameiginlegrar þjónustuskrifstofu og er rekstraformið talið einkar heppilegt fyrir öflug félög sem vilja eða þurfa að halda í sína sérstöðu.
Þetta er mikið fagnaðarefni og ljóst að með þessu verður til sterkt samstarf þriggja öflugra stéttarfélaga háskólafólks með um 4000 félaga, þar af um 2000 störf hjá ríkinu einu eða um 10% allra ríkisstarfa. Er ráðhagur þessi einkar heppilegur í ljósi sameiginlegra hagsmuna þessara þriggja félaga.
Samningur um rekstur nýrrar þjónustuskrifstofu er nú í höfn og ætla má að félagar SL verði ekki fyrir nokkrum óþægindum vegna þessa. Áhersla verður áfram lögð á framúrskarandi þjónustu og öfluga hagsmunagæslu fyrir félagsfólk en nú með aukinni áherslu á kjör starfsfólks hjá ríkinu. Með einsleitari og einfaldari samsetningu félaga næst jafnframt fram hagræði í rekstri sem nýta má til að þróa og bæta þjónustu félagsins enn frekar. SL sér fjölmörg tækifæri í nýrri þjónustuskrifstofu og mun kappkosta að þróa hana til samræmis við áskoranir í rekstri nútímalegra stéttarfélaga.