Beint í efni

Stéttarfélag lögfræðinga styrkir vinnudeilusjóð félagins

Áhyggjuefni fyrir atvinnustefnu á Íslandi

Á aðalfundi Stéttarfélags lögfræðinga síðastliðin föstudag lagði stjórn félagsins fram tillögu um hækkun félagsgjalda frá 0,75% í 0,85% af heildarlaunum sem var samþykkt af miklum meirihluta fundarmanna. Hækkun félagsgjalda verður eyrnamerkt Félags- og vinnudeilusjóði félagsins. Formaður SL, Jóhann Gunnar Þórarinsson, hafði að öðru leyti þetta um málið að segja:

„Það liggur í augum uppi að ástandið er grafaralvarlegt fyrir háskólamenntaða á vinnumarkaði. Samkvæmt tölum frá OECD árið 2018 um ráðstöfunartekjur háskólamenntaða er ávinningur af háskólamenntun umfram framhaldsskólamenntun minnstur innan OECD eða 8%.

Ljóst er að stefna laungreiðenda í kjaramálum er ósjálfbær og til lengri tíma líkleg til að hafa skaðleg áhrif á menntastig þjóðarinnar og framboð á hæfu starfsfólki. Atvinnustefna á Íslandi hlýtur að þurfa taka mið af því og sjá má aukna áherslu á grunniðnað á borð við fiskeldi, ferðamennsku og orkuiðnað, í stað nýsköpunar og hátækniiðnað. Nýliðun háskólamenntaðra dregst enn frekar saman og hætt er við að hæfir einstaklingar leiti frekar í störf erlendis þar sem laun eru hærri og lífsgæði betri. "Mennta- og atvinnustefna á Íslandi er ósjálfbær og hér stefnir í grafalvarlega stöðu".

Að meðaltali hefur engin kaupmáttaraukning átt sér stað á meðal háskólastétta frá aldamótum og ekki verður lengur unað við óbreytt ástand. Laun grunnskóla- og framhaldsskólamenntaðra hafa hækkað mikið og ef tekið er tillit til kostnaðar við menntun er erfitt að sjá að það borgi sig fyrir einstaklinga að sækja sér háskólamenntun. Eitthvað þarf að breytast enda virðast rök og skynsemi duga skammt þegar viðsemjendur skella skollaeyrum við öllum varnarorðum um ástand mála. Stéttarfélag lögfræðinga þarf því að vera reiðubúið að beita sér með öðrum leiðum en félagið er undirbúið undir langa kjarasamningsbaráttu. Þá er svo sannarlega sá möguleiki fyrir hendi að skoða þurfi frekari aðgerðir þó við vissulega vonum að ekki þurfi að koma til þess.“