Beint í efni

Lög Stéttarfélags lögfræðinga

I.kafli. Almennt.

1. gr. Félagið heitir Stéttarfélag lögfræðinga, skammstafað SL. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík

2. gr. Hlutverk félagsins er:

· Að vinna að bættum kjörum félagsmanna og gæta hagsmuna þeirra í kjara- og réttindamálum.

· Að fara með samningsumboð fyrir félagsmenn gagnvart launagreiðendum og öðrum.

· Að standa vörð um réttindi félagsmanna á vinnumarkaði

· Að upplýsa félagsmenn um réttindi þeirra og skyldur

· Að vinna að öryggi félagsmanna á vinnustað í samráði við þar til bærar stofnanir

· Að stuðla að samstarfi við innlend og erlend stéttarfélög.

3. gr. Félagið er aðili að Bandalagi háskólamanna– BHM

II.kafli. Félagsmenn.

4 gr. Félagsaðild er heimil þeim launþegum sem lokið hafa Bachelor gráðu í lögfræði frá viðurkenndum háskóla.

Félagsaðild er óháð starfsvettvangi, vinnuveitanda eða ráðningarformi.

Fullgilda félagsaðild hafa aðeins þeir félagar sem greiða gjöld til félagsins og hafa lagt skriflega beiðni um félagsaðild til félagsins sem samþykkt hefur verið af stjórn félagsins.

Úrsögn úr félaginu skal fara fram með skriflegri tilkynningu til félagsins.

5. gr. Félagsmönnum er skylt að greiða félagsgjald sem ákveðið er samkvæmt lögum þessum.

6. gr. Háskólanemar sem lokið hafa tveimur námsárum af háskólanámi geta orðið félagar með takmörkuðum réttindum og skyldum. Nefnast þeir ungfélagar.

Ungfélögum er heimil fundarseta á almennum félagsfundum, aðalfundum og ráðstefnum með málfrelsi og tillögurétt. Þeir hafa ekki önnur réttindi í félaginu. Hver háskólanemi á rétt á ungfélagaaðild að félaginu í samtals fjögur ár.

III.kafli. Aðalfundur.

7. gr. Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins.

Aðalfund skal halda eigi síðar en í lok mars ár hvert. Til hans skal boðað með sérstöku fundarboði sem sent er félagsmönnum með að minnsta kosti viku fyrirvara og er hann þá lögmætur. Afl atkvæða ræður úrslitum mála, nema annars sé sérstaklega getið í lögum þessum, sbr. 9.gr.

Stjórn getur ákveðið að aðalfundur fari fram rafrænt í fjarfundi eða sem bæði stað- og fjarfundur. Fara þá rafrænt fram atkvæðagreiðslur, samþykktir og slíkt sem jafnan færi fram skriflega.

8. gr. Eftirfarandi mál skulu tekin til meðferðar á aðalfundi:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

2. Skýrsla stjórnar.

3. Stjórn félagsins leggur fram endurskoðaða ársreikninga félagsins fyrir liðið ár til samþykktar.

4. Lagabreytingar, sbr. 9 gr.

5. Kosningar:

a. Kosning formanns annað hvert ár.

b. Kosning 2ja aðalmanna til 2ja ára.

c. Kosning eins varamanns til eins árs.

d. Ákvörðun félagsgjalda.

6. Önnur mál.

9. gr. Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi félagsins. Í fundarboði skal þess getið sérstaklega að tilllaga til lagabreytinga verði tekin til meðferðar á fundinum. Lagabreyting telst samþykkt ef 3/4 hlutar fundarmanna á löglegum aðalfundi greiða henni atkvæði.

9. a. Framboð til setu í stjórn félagsins, sbr. A. og B. lið 5 mgr. 8. gr. skulu tilkynnt stjórn með skriflegum hætti minnst þremur dögum fyrir aðalfund.

IV.kafli. Stjórn, samninganefnd og trúnaðarráð.

10. gr. Stjórn félagsins er skipuð fimm fullgildum félögum og tveimur til vara. Formann skal kjósa sérstaklega en stjórn félagsins skiptir að öðru leyti með sér verkum og ákveður hver sé varaformaður, ritara, gjaldkeri og meðstjórnandi. Formanni er heimilt að boða varamann til þátttöku í starfi stjórnar, en án atkvæðisréttar nema annað leiði af forföllum aðalmanns.

11. gr. Stjórn félagsins ræður málefnum félagsins með þeim takmörkunum er lög þessi setja. Hún tekur nánari ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber ábyrgð á rekstri félagsins, skrifstofuaðild og fjárreiðum þess. Stjórn skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum. Gerðir stjórnarinnar skulu jafnan bókfærðar.

12. gr. Í samninganefnd félagsins eiga sæti stjórnarmenn í félaginu, bæði aðalmenn og varamenn, og skal einn þeirra gegna embætti formanns samninganefndar. Þeir kalla til samningastarfa aðra félagsmenn, starfsmenn og sérfræðinga eftir þörfum.

13. gr. Samninganefnd hefur umboð til að gera kjarasamninga í nafni félagsins.

V.kafli. Boðun verkfalls og samþykkt kjarasamninga.

14. gr. Stjórn félagsins ákveður hvenær leitað skuli eftir samþykki félagsmanna til verkfallsboðunar.

15. gr. Stjórn eða samninganefnd félagsins undirritar kjarasamning, að jafnaði skal undirritunin vera með fyrirvara um samþykki félagsmanna.

16. gr. Stjórn eða samninganefnd félagsins skal kynna félagsmönnum kjarasamning og bera hann undir atkvæði á félagsfundi. Rafræn atkvæðagreiðsla skal vera jafngild atkvæðagreiðslu á félagsfundi.

Leitast skal við að gera öllum félagsmönnum kleift að taka afstöðu til kjarasamninga.

VI. Trúnaðarmenn.

17. gr. Trúnaðarmenn skulu starfa á vegum félagsins, sbr. lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 og lög um stéttarfélög og vinnudeildur nr. 80/1938. Þeir skipa trúnaðarmannaráð sem er stjórn félagsins til aðstoðar við mótun samningastefnu og annast eftirlit með framkvæmd kjarasamninga.

VII. Fjármál, félagsgjöld og slit félagsins.

18. gr. Stjórn félagsins ber ábyrgð á fjármálum og öllum rekstri félagsins. Allar ákvarðanir um óregluleg útgjöld og fjárhagslegar skuldbindingar fyrir félagið skulu teknar til formlegrar afgreiðslu á stjórnarfundum.

Fjárhagsár ársreikninga skal miðast við almanaksár.

Ársreikningar skulu lagðir fram á aðalfundi áritaðir af stjórn. Stjórnin skal ráða löggiltan endurskoðanda til eftirlits með reikningshaldi félagsins.

19. gr. Félagsgjöld almennra félaga og ungfélaga skulu ákveðin á aðalfundi ár hvert.

20. gr.Félaginu verður því aðeins slitið að félagsslitin séu samþykkt á sama hátt og gildir um lagabreytingar sbr. 9. gr. Félagsslitafundur tekur ákvörðun um ráðstöfun eigna félagsins.

[Þannig samþykkt á aðalfundi 29. Mars 2022]