Beint í efni

Saga Stéttarfélags lögfræðinga

Stéttarfélag lögfræðinga í þeirri mynd sem það er í dag má rekja til ársins 1973 þegar samþykkt voru lög nr. 46/1973 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Skipulögð starfsemi utan um hagsmuna- og kjarabaráttu lögfræðinga á Íslandi á sér þó lengri sögu. Lögfræðingafélag Íslands var fyrsta allsherjarfélag lögfræðinga á Íslandi sem gætti hagsmuna lögfræði stéttarinnar. Það var stofnað árið 1958 að frumkvæði lagadeildar Háskóla Íslands en Ármann Snævarr prófessor var kosinn fyrsti formaður þess félags. Lögfræðingafélag Íslands kom síðar á árinu 1958 að stofnun BHM en Ármann Snævarr var einn af upphafsmönnum þess félags. Lögfræðingafélag Íslands ákvað á aðalfundi félagsins þann 30. desember árið 1968 í kjölfar harðrar kjarabaráttu dómarafulltrúa að stofna til svokallaðrar Kjaramálanefndar, sem vann að bættum kjörum lögfræðinga í þjónustu hins opinberra og einkaaðila.

Á árinu 1973 urðu síðan tímamót í sögu Stéttarfélags lögfræðinga en þá voru samþykkt ný lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 46/1973. Af þeim leiddi m.a. að BHM skyldi fara með fyrirsvar ríkisstarfsmanna innan sinna vébanda við gerð aðalkjarasamnings en einstök aðildarfélög eins og t.d. Lögfræðingafélag Íslands skyldu fara með gerð sérkjarasamnings. Á fundi félagsmanna Lögfræðingafélags Íslands var þá stofnuð samninganefnd til að fjalla um gerð sérkjarasamnings og í kjölfarið varð svo til sérstök Ríkisstarfsmannadeild innan Lögfræðingafélags Íslands.

Aðalfundur ríkisstarfsmannadeildarinnar í janúar 1978 samþykkti síðan að breyta nafni deildarinnar í Stéttarfélag lögfræðinga í ríkisþjónustu og að fela stjórn að vinna að samþykktum fyrir félagið. Þær samþykktir voru síðan afgreiddar á aðalfundi 1980.

Samkvæmt þeim tók SLÍR þá við öllum eignum og skuldbindingum ríkisstarfsmannadeildar Lögfræðingafélags Íslands og kom að öllu leyti í hennar stað.

Líkt og flest aðildarfélög BHM breyttist félagið á fyrsta áratug þessarar aldar í þá veru að lögfræðingar í störfum hjá sveitarfélögum og á einkamarkaði gátu fengið félagsaðild. Var þá nafn félagsins stytt í Stéttarfélag lögfræðinga.

Fyrsti formaður Stéttarfélags lögfræðinga í ríkisþjónustu var Allan Vagn Magnússon.

Meðal þeirra sem gegnt hafa formannsembætti eru: Vala Valtýsdóttir, Margrét Heinreksdóttir, Kristín Hlöðversdóttir, Eyþóra K. Geirsdóttir og Alda Hrönn Jóhannsdóttir. Núverandi formaður félagsins er Jóhann Gunnar Þórarinsson.